Reykjaneshringur
Við hefjum ferðina í Reykjavík eða Keflavík (Flugstöð Leifs Eiríkssonar), eftir því sem við á. Við heimsækjum Grindavík, sem er einn af stærstu útgerðarbæjum landsins. Heimsókn í Saltfisksetrið er möguleg. Síðan ökum við í vesturátt um sunnanverðan Reykjanesskagann og skoðum á leiðinni Gunnuhver, mjög virkt hverasvæði í nágrenni Reykjanesvirkjunar.
Nú liggur leið að elsta vita landsins, Reykjanesvita, og stórbrotið fuglalífið í nágrenni vitans skoðað. Héðan er afar víðsýnt og sterk sýn til sjávar og Eldeyjar. “Brúin milli heimsálfa” er næsti viðkomustaður en hér eru jarðfræðileg og greinileg plötuskil, þegar Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekarnir þrýstast frá hvor öðrum og má segja að hér sé Mið-Atlantshafssprungan gengin á land.
Söfnin í Garði og Sandgerði eru valkostur, eins og Víkingaheimur í Reykjanesbæ, þar sem víkingaskipið Íslendingur er varðveitt. Þeir sem þess óska geta jafnframt komið við í Bláa Lóninu.
Áætlaður tími er 5 – 6 klst.
Ekki innifalið: Aðgangseyrir að Bláa lóninu. Athugið að panta þarf aðgang fyrirfram hjá Bláa lóninu.