Ríkisstjórnin hefur samþykkt frumvarp sem rýmkar skilyrði sem þarf til að reka leigubíl, meðal annars með því að afnema reglur um heildarfjölda starfsleyfa en frumvarpinu hefur verið harðlega mótmælt af leigubílstjórum á þeim forsendum að það muni leiða til minna öryggis fyrir farþega sem reiða sig á þjónustu leigubílstjóra, verri þjónustu og muni á endanum leiða til verra ástands á leigubílamarkaði.
Leigubílstjórar hafa í hyggju að sýna andstöðu sína við verk ríkisstjórnarinnar á mánudag og þriðjudag með því að leggja niður störf.
Hreyfill hefur skilning á aðgerðum bílstjóra en vill skora á þá að beina andstöðu sinni frekar að þeim sem andstöðuna eiga skilið, þingmönnum og stjórnvöldum sem með málaflokkinn fara.
Þjónusta leigubílstjóra er samfélagslega mikilvæg. Leigubílstjórar sinna viðkvæmum hópum eins og fötluðum, blindum, öldruðum og öryrkjum jafnt sem uppteknum einstaklingum úr viðskiptalífinu og skemmtanaglöðum. Hreyfill hefur áunnið sér traust þessara hópa með góðri og áreiðanlegri þjónustu á sanngjörnu verði á tæplegum 80 ára ferli fyrirtækisins. Við höfum enn skyldum að gegna gagnvart viðskiptavinum okkar.
Í breyttu samkeppnisumhverfi ætlar Hreyfill að standa vörð um traust sitt og hafa bíla til taks eins og áður. Þar sem Hreyfill er bæði þjónustuaðili viðskiptavina og leigubílstjóra leggjum við áherslu á að þétta raðirnar og styrkja stöðu okkar við breyttar aðstæður. Aðeins þannig getum við staðið vörð um gæði þjónustunnar sem er metin af viðskiptavinum.
Reynslan af hliðstæðum breytingum á hinum Norðurlöndunum hefur verið slæm þar sem þjónusta hefur versnað og öryggi minnkað til muna. Traust viðskiptavina til þess sem ekur þeim er ein grundvallar forsenda velgengni Hreyfils. Við viljum ekki bregðast því trausti. Við leggjum því áherslu á fagmennsku og góða starfshætti hjá okkur þótt stjórnvöld leggi áherslu á hið gagnstæða.
Hreyfill mun því leggja allt kapp á að leigubílstjórar verði til taks, þótt leigubílstjórar kunni að vilja leggja niður störf.
Virðingarfyllst
Haraldur Axel Gunnarsson, framkvæmdastjóri Hreyfils